Af aðalfundi

Aðalfundur Stómasamtaka Íslands var haldinn 4. maí sl. Mæting var með ágætum, en 15 sátu fundinn.

Jón Þorkelsson gaf kost á sér í embætti formanns á ný og var sjálfkjörin. Eva Bergmann átti að ganga úr stjórn, en gaf kost á sér á ný og var sjálfkjörin. Varamenn í stjórn og skoðunarmenn reikninga þeir sömu og stjórnin því að öllu leyti óbreytt frá fyrra ári.

Lagabreytingar

Fáeinar breytingar voru gerðar á lögum samtakanna. Þar ber helst, að samþykkt var að eftirfarandi málsgrein úr 4. gr. laga falli brott:

„Stjórnarmenn mega sitja fimm kjörtímabil samfellt. Seta í stjórn skerðir ekki rétt til kjörgengis til formanns. Sá sem gengur úr stjórn má gefa kost á sér á ný eftir tvö ár“.

Þetta þýðir með öðrum orðum, að einstaklingar geta setið í stjórn án nokkurra tímamarka. Tillagan var lögð fram fyrst og fremst vegna þess hversu illa hefur gengið að manna stjórn undangengin ár.

Ennfremur var samþykkt að breyta lið 4 í 2. gr. laga og hljóðar hún svona í dag:

„að efla samstarf við lækna og hjúkrunarfólk, sem annast þá er fara í stómaaðgerð eða skylda aðgerð. Einnig samtök svo sem Krabbameinsfélag Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og CCU-samtökin.“

Þá var einnig gerð sú breyting á lögum, að kjósa skal varamenn í stjórn og skoðunarmenn reikninga til tveggja ár í stað eins.